„Verið er að kanna hvort fyrir hendi séu lagaheimildir til að afla gagna með þessum hætti og að hvaða marki það kann að þurfa lagabreytingar til, því um þessi mál þurfa að gilda skýrar reglur,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, í svari til Fréttablaðsins .

Skattrannsóknarstjóri hefur sent fjármálaráðuneytinu greinargerð eftir að hafa fengið sýnishorn af gögnum með nöfnum Íslendinga sem tengjast skattaskjólum. Býðst skattrannsóknarstjóra að kaupa gögnin, en hefur hann falið fjármálaráðuneytinu að taka ákvörðun þar um.

Bjarni segir aðalatriðið vera að koma í veg fyrir skattsvik. „Til að uppræta slík brot eiga stjórnvöld að beita öllum þeim lögmætu úrræðum sem virka.“