Forsætisráðherra hefur ákveðið að skipa nefnd sem fara á yfir lögmæti kaupa Magma á eignarhlut í HS Orku, einkavæðingarferli Hitaveitu Suðurnesja frá byrjun árs 2007 og starfs- og lagaumhverfi orkumála í heild sinni, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Kaup Magma á eignarhlutum í HS Orku verða ekki staðfest á meðan að nefndin rannsakar lögmæti þeirra. Ennfremur mun það verða vilji ríkisstjórnarinnar að takmarka eignarhald erlendra aðila á orkufyrirtækjum með lögum. Um þetta verður tilkynnt á blaðamannafundi síðar í dag.

Skilar niðurstöðum 15. ágúst, fyrir septemberlok og fyrir lok árs 2010

Nefndin á að skila niðurstöðu um lögmæti kaupa Magma á eignarhlutum í HS Orku fyrir 15. ágúst næstkomandi, rannsóknarniðurstöðu á einkavæðingarferli Hitaveitu Suðurnesja fyrir lok septembermánaðar og tillögum að endurskoðun á starfs- og lagaumhverfi orkumála fyrir árslok 2010. Við endurskoðun lagaumhverfis varðandi eignarhald á orkufyrirtækjum verður meðal annars stefnt að því að takmarka eignarhald einkaaðila á slíkum með lögum.

Viðskiptablaðið hefur ekki upplýsingar um hverjir muni sitja í nefndinni en skipan í hana mun klárast í dag eða á morgun.

Gylfi Magnússon mun senda málsaðilum bréf og segjast ekki staðfesta kaup Magma

Þá mun Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra senda bréf til Magma og annarra málsaðila síðustu eigendaskipta í HS Orku og tilkynna þeim að hann muni ekki staðfesta kaup Magma á hlut Geysis Green Energy í HS Orku að svo stöddu. Hann muni þó tilkynna um hvort hann geri slíkt eður ei fyrir 15. ágúst næstkomandi.

Í bréfinu sem ráðherrann mun senda málsaðilum mun koma fram að á vegum stjórnvalda sé að hefjast umfangsmikil vinna sem kunni að hafa áhrif á framtíðarstöðu opinberra aðila og einkaaðila á sviði orkumála. Þar mun einnig segja að sitjandi ríkisstjórn sé staðráðin í að vinda ofan af einkavæðingu innan orkugeirans og tryggja eftir megni að stærstu orkufyrirtæki landsins séu undir stjórn opinberra aðila.

Uppfært klukkan 16:15

Forsætis- fjármála- iðnaðar-, efnahags- og viðskipta- og umhverfisráðherra, sem og þingflokkar stjórnarflokkana, munu tilnefna einn fulltrúa hver í sérstakan starfshóp sem á að undirbúa lagafrumvarp sem tryggir opinbert eignarhald á mikilvægum orkufyrirtækjum og takmarki eignarhald einkaaðila. Hópurinn mun hefja störf samstundis.

Þessi hópur mun starfa sérstaklega og skarast ekki á við nefnd sem forsætisráðherra mun tilkynna um að verði skipuð á allra næstu mínútum.  Stefnt er að því að leggja fram lagafrumvarp í samræmi við niðurstöðu starfshópsins fyrir lok októbermánaðar.