Kaupverð Marels á AEW Thurne og Delford Sortaweigh er hagstætt, að sögn greiningardeildar Kaupþings banka, sem telur líklegt að hægt sé að ná fram hagræðingu í rekstri félaganna.

Marel greindi frá kaupunum á bresku félögunum tveimur fyrir samtals 1,7 milljarða króna í dag. Kaupin eru í samræmi við stefnu sem Marel kynnti í febrúar síðastliðnum um það að vera leiðandi á sínum markaði og að þrefalda veltu félagsins á næstu þremur til fimm árum.

Velta félaganna á síðasta ári nam 3,5 milljörðum króna og var leiðréttur hagnaður fyrir afskriftir um 259 milljónir króna.

?EBITDA framlegðin er því ekki nema 7,5%, sem er mun lægra en verið hefur hjá Marel samstæðunni og líklegt að hægt sé að ná fram hagræðingu í rekstri félaganna. Miðað við EBITDA síðasta árs fæst EV/EBITDA 6,7x í kaupunum, og verður að segjast að það virðist vera nokkuð hagstætt kaupverð fyrir Marel og virðast hluthafar Marels ekki vera að borga fyrri hluthöfum fyrir möguleg samlegðaráhrif," segir greiningardeildin.

Marel hefur nýlokið við útgáfu skuldabréfa að fjárhæð sex milljarðar króna. Vaxtakostnaður af skuldabréfunum er 6% og ólíklegt að þessum fjármunum verði ekki komið í vinnslu fljótlega, segir greiningardeild Kaupþings banka.

Fyrirtækið hefur þegar ráðstafað um 30% af lánsfjárhæðinni, með kaupunum á AEW Thurne og Delford Sortaweigh.