*

föstudagur, 30. október 2020
Erlent 2. ágúst 2020 17:50

Kaup Microsoft á TikTok í óvissu

Viðræður Microsoft um kaup á TikTok eru í biðstöðu eftir að Donald Trump sagðist vilja banna smáforritið.

Ritstjórn

Microsoft hefur sett viðræður um kaup á starfsemi TikTok í Bandaríkjunum á ís eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti sagðist vera mótfallinn samningnum, samkvæmt heimildum WSJ

Viðræður Microsoft og ByteDance voru sagðar vera langt á veg komnar og vonast var til að ljúka samningum á morgun áður en Trump tjáði blaðamönnum á föstudaginn að hann myndi ekki styðja söluna og vilji frekar banna smáforritið.

TikTok hefur lofað að fjölga 10.000 störfum í Bandaríkjunum á næstu þremur árum en óljóst er hvort það muni hafa áhrif á afstöðu Trump. Xhang Yiming, stofnandi ByteDance, hefur einnig samþykkt að selja sinn eignarhlut.  

Ummæli Trump komu samningsaðilunum á óvart þar sem viðræðurnar hafa staðið yfir í nokkrar vikur. Bandarísk stjórnvöld voru höfð með í ráðum og það var skýrt frá upphafi að ákjósanleg niðurstaða yrði að TikTok væri í eigu Bandaríkjamanna, samkvæmt einum heimildarmanni. 

Sjá einnig: Trump skyldar ByteDance að selja TikTok

Samningurinn felur í sér kaup á starfsemi TikTok í Bandaríkjunum, þar á meðal hugverkum og tækni. Um 1.500 manns starfa hjá fyrirtækinu í Bandaríkjunum. Talið er að kaupverðið hljóði upp á 15 til 30 milljarða dollara samkvæmt heimildum Financial Times. Bandarískir notendur smáforritsins munu enn geta skoðað efni frá notendum annarra landa. 

Microsoft hefur lítil umsvif á samfélagsmiðlum en fyrirtækið trúir því að kaupin á TikTok gefi þeim færi á koma sér í betri stöðu á þessum markaði og þá í samkeppni við Facebook. 

Stjórnendur TikTok og fjárfestar hafa velt því fyrir sér hvort Facebook, sem er að undirbúa útgáfu á Instagram Reels sem verður í samkeppni við TikTok, hafi sett þrýsting á bandaríska stjórnmálamenn að banna kínverska smáforritið. 

TikTok segist hafa 100 milljónir notenda í Bandaríkjunum en fyrirtækið hefur varið miklum fjármunum til að fjölga notendum á undanförnum árum. Fyrirtækið gerir ráð fyrir tekjum upp á einn milljarð dollara í ár og sex milljörðum á næsta ári. 

Stikkorð: Microsoft Donald Trump TikTok ByteDance