Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt kaup Pressunnar á sjónvarpsstöðinni ÍNN og þar með samruna fyrirtækjanna. Samruninn felur í sér að Pressan kaupi alla hluti í ÍNN af Ingva Hrafni Jónssyni og Ingva Erni Ingvasyni. Með í kaupunum fylgja allar eignir ÍNN, samningar, viðskiptasambönd, hugverkaréttindi og fleira. Í kjölfarið verður ÍNN sjálfstætt dótturfélag Pressunnar og heldur áfram starfsemi sinni í óbreyttri mynd.

Í samrunaskrá kemur fram að meginmarkmiðið með samruna fyrirtækjanna sé hagræðing í rekstri og samþætting skylds reksturs. Vegna fjárhagserfiðleika ÍNN sé þetta afar þýðingarmikið.

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að samþykkja samrunann, sem birtist nýlega á vef eftirlitsins og er dagsett 17. janúar, kemur fram að eftirlitið líti ekki á samrunann sem neikvæðan fyrir samkeppni, þar sem eftirlitið metur sem svo að samrunaaðilar starfi ekki á sömu mörkuðum. Því sé um svokallaðan samsteypusamruna að ræða.

Ingvi Hrafn mun áfram verða með þátt sinn Hrafnaþing á ÍNN og þá mun þáttur Björns Inga Hrafnssonar, stjórnarformanns og stærsta eiganda Pressunnar, Eyjan, færast yfir á ÍNN frá Stöð 2.

Hér má lesa úrskurð Samkeppniseftirlitsins.