Kaup Samskipa á breska skipafélaginu Seawheel eru frágengin í kjölfar úrskurðar evrópskra samkeppnisyfirvalda, samkvæmt fréttatilkynningu Samskipa.

Engar athugasemdir voru gerðar af hálfu evrópskra samkeppnisyfirvalda við kaupin, sem var tilkynnt um fyrr í sumar eða fyrirhugaða sameiningu félagsins við starfsemi hollenska flutningafyrirtækisins Geest North Sea Line, sem Samskip keyptu fyrr á árinu.

Þá kemur fram í tilkynningunni að hafist hafi verið handa við sameiningu félaganna um leið og úrskurður samkeppnisyfirvalda lá fyrir og að nú þegar hafi stjórn Seawheel látið af störfum. Því heyri rekstur félagsins undir stjórn Geest. Vörumerkin Seawheel og Geest verða notuð áfram jöfnum höndum þar til annað verður tilkynnt.

Ennfremur kemur fram í tilkynningunni að Samskip munu styrkja stöðu sína með sameiningu félaganna á flutningsleiðum milli meginlands Evrópu og Bretlands, Írlands og Skotlands.

?Sameiningunni fylgja umtalsverð samlegðaráhrif, sem skila sér í aukinni og betri þjónustu og hagkvæmari kjörum fyrir viðskiptavini, en jafnframt er nauðsynlegt að samhæfa reksturinn þar sem starfsemin skarast."

Eftir kaupin á Seawheel hafa Samskip yfir að ráða 36 skipum í föstum áætlunarsiglingum, sem flytja árlega um 1,1 milljón gámaeininga milli hafna í Evrópu. Starfsmenn félagsins eru um 1.550 talsins og er áætluð velta fyrirtækisins um 58 milljarðar íslenskra króna