Kaup fjárfestingasjóða á fasteignum og útleiga þeirra á íbúðum skilar sér í verðhækkun á leigumarkaði. Svanur Guðmundsson, formaður löggiltra leigumiðlara, segir í samtali við Fréttatímann í dag sjóðina búa til bólu sem springur eins og graftarkýli á unglingi. „Þetta eru bara verðbréfamiðlarar sem eru í öðrum heimi. Það kæmi mér ekki á óvart að leiguverðið þyrfti að hækka um fimmtíu prósent til að standa undir verði eignanna. Þessir menn eru ekki tengdir inn á hinn almenna borgara,“ segir hann.

Blaðið bendir á í umfjöllun sinni að vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,4 prósent frá janúar til febrúar. Síðastliðna tólf mánuði er hækkunin 10,6 prósent. Samkvæmt tölum Þjóðskrár kostar um 110 þúsund krónur að leigja tveggja herbergja íbúð í vesturhluta Reykjavíkur og Seltjarnarnesi, að meðaltali. Þriggja herbergja íbúð kostar 143 þúsund krónur á mánuði en 4-5 herbergja íbúð 186 þúsund krónur.

Blaðið hefur sömuleiðis eftir Guðlaugi Erni Þorsteinssyni, framkvæmdastjóra Leigulistans að helmingi færri eignir séu á skrá en venjulega og skorti íbúðir á leigumarkaði.