Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt kaup Stoða (áður FL Group) á hlutum í fasteignafélögunum Landic Property og Þyrpingu, en vegna stjórnunar- og eignartengsla leiddu kaupin af sér að um samruna Landic Property og Þyrpingar var að ræða í skilningi samkeppnislaga vegna kaupanna. Þar sem Landic Property ná yfirráðum í Þyrpingu telst vera um samruna að ræða, en gögn málsins þóttu ekki benda til þess að félögin kæmust í markaðsráðandi stöðu með honum og því gerði Samkeppniseftirlitið ekki athugasemdir við kaupin.

Möguleg tengsl félaganna við Eik Properties verða svo tekin til skoðunar í öðru máli.

Deilt var um hvort um samruna væri að ræða í skilningi samkeppnislaga, en feli viðskipti í sér að eigendur með yfirráð í einu fyrirtæki nái yfirráðum í öðru fyrirtæki er um samruna að ræða í skilningi laganna.

Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins er sú að Stoðir Eignarhaldsfélag fari með yfirráð í Landic Property og að mikil efnahagsleg tengsl séu á milli Landic Property og Þyrpingar.

Ljóst þykir að Stoðir og Landic Property muni vegna tengsla félaganna ekki greiða atkvæði hvort gegn öðru í stjórn Þyrpingar, en félögin eiga sinn hvorn 49% hlutinn í Þyrpingu. Þau teljast því fara með sameiginleg yfirráð í Þyrpingu.

Samkvæmt því er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins sú að Stoðir Eignarhaldsfélag fari með yfirráð í bæði Landic Property og Þyrpingu eftir kaup Stoða á hlutum í Landic Property og Þyrpingu, og teljast kaupin því fela í sér samruna í skilningi 17. greinar samkeppnislaga.

Þrátt fyrir að niðurstaðan sé að um samruna sé að ræða sá Samkeppniseftirlitið eins og áður sagði ekki ástæðu til að aðhafast frekar í málinu, þar sem hann leiðir ekki til þess að Landic Property og Þyrping komist í markaðsráðandi stöðu.

Í lokaorðum úrskurðar Samkeppniseftirlitsins er ítrekað að möguleg tengsl Landic Property og Þyrpingar við fasteignafélagið Eik Properties (áður Eik og Fasteignafélag Íslands) verða tekin til skoðunar í öðru máli.