Söfnun fyrir DaVinci aðgerðarþjarka fyrir Landspítala hefur tekið ánægjulegan lokahnykk með því að Pokasjóður ákvað að leggja 25 milljónir króna til kaupanna. Þar með hafa 110 milljónir króna safnast og kaupin komin í höfn en samkomulag var milli Söfnunarsjóðs um aðgerðarþjarka og Landspítala að sjóðurinn fjármagnaði allt að helmingi kaupverðs þjarkans. Landspítali fjármagnar hinn helminginn. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landspítalanum.

Í dag staðfesti Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra, ásamt  Páli Matthíassyni, forstjóra Landspítala og Brynjólfi Bjarnasyni, formanni stjórnar Söfnunarsjóðsins, samkomulag um fjármögnun þjarkans. Áætlað er að búnaðurinn verði tekinn í notkun í vetur.

Við þetta tækifæri afhenti Pokasjóður þær 25 milljónir króna sem upp á vantaði til að festa kaup á aðgerðarþjarkanum. Með því framlagi lýkur söfnuninni sem staðið hefur undanfarin tvö ár með þátttöku fjölda fyrirtækja, samtaka og einstaklinga.

Á síðustu árum hefur svokallaður aðgerðarþjarki (róbót) verið tekinn í notkun á helstu sjúkrahúsum í nágrannalöndunum. Búnaðurinn nýtist til margvíslegra skurðaðgerða, sérstaklega þó við þvagfæraskurðlækningar sem og aðgerðir á grindarholslíffærum kvenna. Aðgerðir með þessari aðferð eru inngripsminni en ella, bati er skjótari og hægt að hlífa betur nærliggjandi líffærum og viðkvæmri starfsemi. Í raun er um að ræða framlengingu á fingrum skurðlæknisins. Allar hreyfingar verða nákvæmari og sýn skurðlæknisins á aðgerðarsvæðinu framúrskarandi. Með þessari mikilvægu viðbót við tækjabúnað Landspítala er landsmönnum tryggð sambærileg þjónusta og til boða stendur í nágrannalöndum okkar og er um að ræða fyrstu meiri háttar nýjung í skurðaðgerðum á Íslandi frá aldamótum. Ekki er síður mikilvægt að með tilkomu tækisins koma til landsins íslenskir skurðlæknar sem hlotið hafa þjálfun á þessu sviði