*

laugardagur, 29. janúar 2022
Erlent 21. júní 2021 13:59

Fá 10% hlut á fjóra milljarða dollara

Stærsta sérhæfða yfirtökufélag heims, Pershing Square Tontine Holdings, hefur keypt 10% hlut í Universal fyrir um fjóra milljarða dollara.

Snær Snæbjörnsson
Bill Ackman, forstjóri Pershing Square Capital Management
epa

Sérhæfða yfirtökufélagið (e. SPAC) Pershing Square Tontine Holdings (PSTH), stofnað af Bill Ackman, hefur náð samkomulagi um kaup á 10% hlut í Universal Music Group (UMG) fyrir um fjóra milljarða dollara, hátt í 500 milljarða króna. FT greinir frá.

Sjá einnig: SPAC-félög keyra upp ruslflokka

Universal er metið á um 40 milljarða dollara samkvæmt samkomulaginu en félagið kaupir hlutinn af franska félaginu Vivendi sem er meirihlutaeigandi Universal. PTSH hafði betur gegn frumtakssjóði Hellman & Friedman sem hafði boðist til að kaupa hlutinn á þrjá milljarða dollara.

PTSH mun deila hlutabréfum Universal meðal fjárfesta sinna eftir að Universal fer á markað á Euronext markaðinum í Amsterdam. Þá mun félagið halda áfram að leita að fjárfestingartækifærum en það hefur enn aðgengi að um 2,9 milljörðum dollara.  

PSTH sótti fjóra milljarða dollara í frumútboði sínu á síðasta ári en það var stærsta frumútboð SPAC félags til þessa. Það sem af er árs hafa SPAC félög safnað um hundrað milljarð dollara. Vinsældir þessara félaga hafa þó farið dvínandi upp á síðkastið en erfitt hefur reynst fyrir félögin að finna fjárfestingar við hæfi.

SPAC félög hafa legið undir töluverðri gagnrýni en stjórnmálamenn vestanhafs hafa meðal annars sagt að þau séu eingöngu til þess fallinn að bólstra vasa Wall Street innherja á kostnað almennra fjárfesta. Þá hefur SEC, Verðbréfaeftirlit Bandaríkjanna, skorist í leikinn og hafið rannsóknir á sumum þessara félaga auk þess að setja strangari kröfur á þau.

Universal hefur gengið vel í faraldrinum og hafa rekstrartekjur aukist um 20% frá 2017. Universal er með samning við stór nöfn og má þar einna helst nefna Taylor Swift, Kanye West og Lady Gaga.

Stikkorð: Bill Ackman SPAC