Fyrirtækin Luxor og SmartSignage hafa fest kaup á 180 fermetra skjá sem vegur þrettán tonn. Skjárinn er keyptur í tengslum við uppsetningu rafíþróttamótsins League of Legends Mid-Season Invitational sem haldið verður í Laugardalshöll í þessum mánuði. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Skjákaupin hafa verið í undirbúningi í rúmlega ár, en skipuleggjendur mótsins höfðu strax samband við Luxor þegar ákveðið var að halda mótið hér í byrjun þessa árs. “Þá þurftum við að hafa hraðar hendur, ef við ætluðum að ná skjánum inn fyrir mótið, því það tekur töluverðan tíma að framleiða þetta magn, klára gæðaprófanir og flytja skjáinn til landsins,” er haft eftir Karli Sigurðsson framkvæmdastjóra Luxor í tilkynningunni.

“Framleiðendur rafíþróttamótsins gera mjög strangar kröfur um þéttleika, gæði, magn og tegund þeirra LED skjáa sem þeir velja í keppnirnar sínar og okkur tókst að uppfylla öll þau skilyrði. Enda er þéttleiki hans 2,9mm sem er þéttara en aðrir skjáir sem eru þegar til á landinu. Skjárinn er einnig 20.338.000 pixlar en til að setja það í samhengi er hefðbundin 4K upplausn 8 milljónir pixla ásamt því að hann er HDR eins og nýjustu sjónvörp á markaðnum í dag.”

Risaskjár
Risaskjár
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Jafngildir 808 tommu skjá
Skjárinn – sem er ígildi 808 tommu sjónvarps að flatarmáli – er settur saman úr 720 mismunandi einingum sem hver um sig er 50x50 sentímetrar að stærð. Hann er því hægt að setja saman á ólíkan hátt eftir aðstæðum og þörfum hverju sinni. Sem dæmi verði þeir settir upp á mótinu sem tveir 16m x 4.5m skjáir 72 fermetra hvor um sig og tvö spilara borð sem eru 1m x 12,5m að sögn Ísaks Bjarnasonar, framkvæmdastjóra SmartSignage.

Ísak segist einnig vera spenntur fyrir framtíðinni. “Nú getum við loks boðið upp á skjálausnir sem hafa aldrei verið mögulegar á landinu áður. Þetta mun skapa gífurleg tækifæri fyrir íslenskan markað og gera okkur samkeppnishæf í bransa sem gerir sífellt meiri og meiri kröfur til efnissköpunar. Við erum allaveganna mjög spennt fyrir komandi verkefnum og hlökkum til að geta sýnt ykkur meira frá því sem við erum að vinna að.”