Baldvin M. Hermannsson, forstjóri Flugfélagsins Atlanta ehf , hefur ásamt hópi lykilstarfsmanna keypt 20% hlut í Atlanta og tengdum félögum. Samningar þess eðlis hafa verið undirritaðir og er kaupverðið trúnaðarmál milli samningsaðila að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

„Eftir að hafa tekist á við afar krefjandi verkefni í kjölfar COVID faraldursins er Flugfélagið Atlanta nú reiðubúið til að taka næstu skref inn í framtíðina, ásamt frábæru starfsfólki. Félagið stendur styrkum fótum og sveigjanleiki okkar með þann flugflota sem við höfum yfir að ráða gefur okkur tilefni til bjartsýni. Sameinað og öflugt stjórnenda- og eigendateymi félagsins hlakkar til komandi verkefna,“ er haft eftir Hannesi Hilmarssyni, stjórnarformanni Atlanta, í tilkynningunni.

Að sögn Baldvins undirstrika kaupin þá miklu trú sem hann og lykilstarfsmennirnir hafa á flugfélaginu og framtíðaráætlunum þess.

„Við ætlum að halda áfram að stækka og eflast á komandi árum. Við munum bæta enn frekar við flugflotann, stækka markaðssvæði okkar og hlutdeild á markaði og framundan eru afar spennandi tímar,“ er haft eftir Baldvin.

Flugfélagið Atlanta rekur nú níu B747 -400 fraktflugvélar og er starfsstöð þess á Íslandi. Einnig eru forráðamenn félagsins að vinna að stofnun flugfélags á Möltu. Um 200 starfsmenn starfa fyrir Flugfélagið Atlanta ehf. á Íslandi og í tilkynningu segir að félagið hafi á síðasta ári skilað um 7 milljörðum króna til íslenska hagkerfisins.

Fjallað var um Atlanta í Viðskiptablaðinu í síðustu viku, þar sem meðal annars var greint frá því að reksturinn hefði gengið framar vonum í fyrra og stefnt væri að sjö milljarða króna arðgreiðslu til eigenda.