Eignarhaldafélag Frosta Bergssonar, F.Bergsson Eignarhaldsfélag ehf., og eignarhaldsfélag Eiríks Tómassonar, Gnúpverjar ehf., hafa keypt 83,82% hlut í NordVest verðbréfum hf., að því er fram kemur í tilkynningu. Kaupin eru gerð í samstarfi við framkvæmdastjóra félagsins, Skúla Sveinsson, og forstöðumann verðbréfamiðlunar, Jón F. Thoroddsen.

NordVest er óháð verðbréfafyrirtæki og er með aðild að Kauphöll Íslands. Á meðal viðskiptavina félagsins eru lífeyrissjóðir, fjárfestingafélög og einstaklingar. Umfang fyrirtækisins hefur aukist mjög á síðustu misserum og hefur verið leiðandi í verðsamkeppni á íslenskum verðbréfamarkaði, að því er fram kemur í tilkynningu

Hlutafé NordVest verður aukið á næstunni til að efla reksturinn. Ráðgert er að setja upp eignastýringarsvið á fyrri hluta næsta árs, sem mun bjóða upp á óháða eignastýringu og ráðgjöf.

Stefnt er á að NordVest verði aðili að kauphöllunum innan OMX Nordic Exchange samstæðunnar, en þar er um að ræða kauphallirnar í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi. Kauphöll Íslands var nýverið yfirtekin af OMX Nordic Exchange sem gerir aðild að hinum kauphöllunum vænlegan kost fyrir félagið.