Reitir fasteignafélag hefur nú tilkynnt um að selja skuli eign félagsins, Aðalstræti 16, til Íslandshótel ehf. Húsið stendur við hlið Fjalakattarins og ská á móti Herkastala Hjálpræðishersins.

Íslandshótel leigja húsnæðið nú þegar, en þar er rekið hótelið Hótel Reykjavík Centrum. Salan er gerð á grundvelli kaupréttarákvæðis sem tilgreindur var í upprunalega leigusamningi félaganna.

Söluverðið nemur um 2,5 milljörðum króna og er það greitt með reiðufé. Í tilkynningu segir að við söluna muni rekstrarhagnaður Reita lækka um 175 milljónir króna á ársgrundvelli. Gengi hlutabréfa Reita í Kauphöllinni hefur þá hækkað um 1,08% í dag.