AdvInvest, sem er aðaleigandi Advania, hefur samið við Framtakssjóð Íslands um kaup á öllu hlutafé sjóðsins í fyrirtækinu. Þetta kemur fram í Markaðnum á Fréttablaðinu .

Þar kemur fram að samkomulagið kveði jafnframt á um að öðrum hluthöfum Advania verði boðið að selja hlut sinn á sömu kjörum. Einnig sé stefnt að skráningu Advania í Kauphöll Íslands árið 2016 og í kjölfarið verði félagið einnig skráð í kauphöllina í Stokkhólmi.

Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania, segir í samtali við Markaðinn að eigendur Advania leggi áherslu á að kjarninn í starfsemi fyrirtækisins verði áfram á Íslandi. Höfuðstöðvarnar verði ekki fluttar. Segir hann það hafa ótalmarga kosti að reka upplýsingafyrirtæki hér á landi.