FL Group og dótturfélag Kaupþings banka hafa undirritað samning við Singapore Airlines Cargo um kaup á Boeing 747-400 fraktflugvél fyrir um 5 milljarða króna. Um er að ræða svokallaðan "sale-leaseback" samning, sem felur í sér að um leið og vélin var keypt var hún jafnframt leigð til Singapore Airlines Cargo til tíu ára. Hafa FL Group og Kaupþing banki stofnað sérstakt eignarhaldsfélag um flugvélina. Þetta er fyrsta samstarfsverkefni félaganna um eignarhald í flugvélaviðskiptum.

Kaupþing banki á 51% í eignarhaldsfélaginu en FL Group 49% en fyrirætlanir eru um að aðrir fjárfestar komi að kaupunum á síðari stigum. Kaupin eru fjármögnuð með liðsinni ABC bankans í Bahrain, en Icelease ehf. dótturfyrirtæki FL Group sem sérhæfir sig í flugvélaviðskiptum stýrði viðræðum og annaðist samningagerðina.

Singapore Airlines Cargo er sérhæft fraktflugfélag sem er að fullu í eigu Singapore Airlines, en félagið er að stærstum hluta í eigu ríkisins í Singapore. Félagið er talið eitt af best reknu flugfélögum heimsins og hefur hlotið ótal alþjóðlegar viðurkenningar fyrir starfsemi sína.

Hannes Smárason, stjórnarformaður FL Group segir að í samningnum felist í raun viðurkenning fyrir FL Group. "Singapore Airlines hefur gríðarlega sterkt orðspor og það er okkur mikið ánægjuefni að eiga viðskipti af þessu tagi við félagið. Þau eru í takt við fyrirætlanir okkar á sviði fjárfestinga, en með þeim er blandað saman sérþekkingu okkar á sviði flugvélaviðskipta og fjárfestinga. Samningurinn gefur öruggar tekjur frá mjög áreiðanlegum rekstraraðila, segir Hannes.

Örvar Kærnested, framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Kaupþings banka segir spennandi fyrir bankann að taka þátt í verkefninu með FL Group.
"Samningurinn felur í sér fyrstu beinu fjárfestingu bankans í flugvélum, en áður hefur bankinn komið að fjármögnun flugvélaviðskipta FL Group.
Samningurinn er hagstæður fyrir báða aðila og við munum huga að frekara samstarfi á þessu sviði".