Kortafyrirtækið Visa Inc. hefur komist að samkomulagi um kaup á sænska fjártæknifélaginu Tink fyrir 2,2 milljarða dollara, um 270 milljarða króna. Reuters greinir frá.

Tink auðveldar bönkum og öðrum fjármálafyrirtækjum að deila og nálgast fjárhagsupplýsingar neytenda. Þá er hugbúnaður Tink notaður af meira en 3.400 bönkum og stofnunum víðs vegar um Evrópu, ásamt yfir 250 milljón viðskiptavinum.

Fyrr á árinu hafði samkeppniseftirlitð í Bandaríkjunum hafnað samruna Visa og Plaid, sambærilegu bandarísku fyrirtæki, á grundvelli þess að samruninn gæti leitt til einokunar. Visa gæti þó enn mætt samskonar mótstöðu í Evrópu.

Sænsk fjártæknifyrirtæki hafa verið að sækja í sig veðrið upp á síðakastið en sænska greiðsludreifingarfélagið Klarna var metið á 46 milljarða dollara en fyrr í mánuðinum sótti félagið 639 milljónir dollara.

Þá var sænski greiðslusprotinn iZettle seldur til PayPal á 2,2 milljarða dollara fyrir þremur árum síðan. Verði samruni Visa og Tink að veruleika mun Svíþjóð hafa framleitt tvo stærstu fjártæknisamruna Evrópu.