Ásdís Ýr Pétursdóttir
Ásdís Ýr Pétursdóttir
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Ásdís Pétursdóttir upplýsingafulltrúi Icelandair segir ákvörðun flugfélagsins um að fjölga flugi frá því í byrjun júlí sem Viðskiptablaðið greindi fyrst frá í morgun geta tekið breytingum. Félagið uppfærði í gær flugáætlun sína og bætti við 15 nýjum áfangastöðum sem taka gildi í júlí, en Ásdís segir bókanir vera farnar að aukast hægt og bítandi á ný.

„Þetta er sú flugáætlun sem við erum að miða við og stilla upp fyrir næstu tvær vikur á eftir þessum fyrstu tveim sem hefjast núna á mánudaginn. Við erum með ákveðna flugáætlun fyrir þær og þetta myndi svo taka við,“ segir Ásdís.

„Þetta byggir á því að við séum að gefa okkur að það verði búið að opna í Bandaríkjunum þegar þar að kemur. Við erum að reyna að meta hvað við teljum líklegt, en þetta getur auðvitað tekið breytingum. Staðan breytist hratt svo við erum að meta þetta dag frá degi og reyna að vera sveigjanleg.“

Búast ekki við fullum vélum

Ásdís segir félagið ætla sér að bæta við ferðum hægt og bítandi en enn séu töluvert af bókunum í ferðir sem ekki hafi verið slegnar af eftir að þessum rúma mánuði sem nú hefur verið settur upp í flugáætlun lýkur.

„Við erum búin að hreinsa aðeins upp fram í tímann og fella niður eitthvað af flugi inn í sumarið, sem tilkynnt var um áður, en nú erum við að birta þessa flugáætlun tvær vikur fram í tímann, það er þessar fyrstu tvær vikur 15. júní til 30. júní og svo aftur þarna 1. til 19. júlí,“ segir Ásdís sem segir bókanir byrjaðar að taka við sér.

„Fólk er að kaupa flug með skömmum fyrirvara núna, það er að koma hægt og rólega. Við erum að alveg að sjá bókanir fara upp, en við erum ekki að búast við fullum vélum fyrst um sinn. Þetta er allt að breytast hratt þessa dagana, en staðan byggir allt á þeim ákvörðunum sem verða teknar af stjórnvöldum á hverjum stað. Við verðum bara að bíða eftir að það komi formlegar tilkynningar frá hverju landi fyrir sig um frekari ákvarðanir um opnun.“

Tilbúin að nýta tækifærið ef landið opnar meira

Á dögunum ræddi dómsmálaráðherra um möguleikann á að opna einhliða fyrir ferðir fólks utan Schengen svæðisins hingað til lands, en ekki hefur verið tekin ákvörðun um það né opnanir Schengen svæðisins. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur talað um að til greina komi að setja brottfarareftirlit inn á Schengen svæðið til þess að opna fyrir flug frá löndum utan þess.

„Við erum bara í startholunum og að undirbúa okkur fyrir þau tækifæri sem kunna að gefast, þetta getur allt tekið breytingum en við erum alla vega með fyrstu drög að áætlun um aukið flug,“ segir Ásdís sem segir flugið til Bandaríkjanna og Bretland áfram vera samkvæmt samningi við stjórnvöld, en ekki til Svíþjóðar.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um fær félagið allt að 300 milljónir króna vegna samningsins, sem getur að hámarki orðið hálfur milljarður ef verður framlengdur. Áfram eru í gildi stífar sóttkvíar og varúðarreglur í löndunum tveimur.

„Samningurinn um lágmarksflug er í gildi til 27. júní, og er flugið til London og Boston áfram samkvæmt honum, og svo er framlengingarákvæði í samningnum verði áframhaldandi stuðningur nauðsynlegur. Samkomulagið dettur hins vegar sjálfkrafa úr gildi um leið og við förum að fjölga flugi umfram tvö á viku, en strax frá mánudeginum verða ferðirnar til Stokkhólms þrjár á viku.“