Suður-kóreska fyrirtækið NXC hefur fest kaup á norska fyrirtækinu Stokke AS sem er líklega þekktast fyrir framleiðslu sína á Tripp Trapp barnastólunum. Kaupverðið er talið nema um 483 milljónum dollara eða tæpum 60 milljörðum íslenskra króna.

Stokker er fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað árið 1932 og hefur haft höfuðstöðvar í Álasundi.  Auk hinna frægu Tripp Trapp stóla framleiðir fyrirtækið ýmsan varning fyrir börn meðal annars barnahúsgögn, barnavagna og barnabílstóla.

Tripp Trapp stóllinn kom fyrst á markað fyrir 41 ári og hefur fyrirtækið selt yfir 8,5 milljónir stóla á þeim tíma. Í fyrra seldist hálf milljón Tripp Trapp stóla.

Hinn 45 ára gamli Jung-Ju Kim er í forsvari fyrir NXC en hann er einn af ríkustu mönnum Suður-Kóreu. NXC er meðal annars meirihlutaeigandi í japanska tölvuleikjafyrirtækinu Nexon.