Norðurorka hf. hefur keypt fráveitukerfi Akureyrarbæjar á 2,3 milljarða króna. Kaupverðið felst að hluta í yfirtöku á lánum og mun ekki hafa áhrif á samstæðureikning bæjarsjóðs Akureyrar. Samningurinn var undirritaður um áramótin af þeim Eiríki Birni Björgvinssyni bæjarstjóra og Helga Jóhannessyni forstjóra Norðurorku.

Árið 1993 voru Vatnsveita Akureyrar og Hitaveita Akureyrar sameinaðar og árið 2000 bættist Rafveita Akureyrar við og til varð sameinað veitufyrirtæki Akureyringa, Norðurorka. Síðan þá hafa veitur í nágrannasveitarfélögum sameinast Norðurorku hf. Í samningnum um fráveitukerfið er gert ráð fyrir að farið verði í byggingu hreinsistöðvar við Sandgerðisbót á næstu árum. Áætlað er að bygging stöðvarinnar kosti um 1,2 milljarða króna.