*

föstudagur, 5. mars 2021
Innlent 1. september 2020 17:46

Sölutryggja 6 milljarða í Icelandair

Ríkisbankarnir tveir skuldbunda sig til kaupa fyrir 6 milljarða í hlutafjárútboði Icelandair ef áskriftir ná 14 milljörðum.

Ritstjórn

Icelandair Group hefur náð samkomulagi við ríkisbankana tvo, Íslandsbanka og Landsbankann um sölutryggingu væntanlegs hlutafjárútboðs félagsins.

Samkvæmt samkomulaginu munu bankarnir kaupa nýtt hlutafé að andvirði samtals allt að 6 milljarða króna.
Endanleg fjárhæð sölutryggingar mun skiptast jafnt milli bankanna.

Samningurinn er háður því skilyrði að áskriftir fjárfesta nái að lágmarki 14 milljörðum króna í útboðinu sem boðað hefur verið að verði 14. til 15. september næstkomandi, en þar verður nýjum fjárfestum boðið 80% í félaginu á útboðsgenginu 1 króna hvert bréf en lágmarksverð 250 þúsund krónur til að taka þátt.

Upphaflega stóð til að útboðið yrði í ágústlok, en fyrst þurfti félagið að ná samningum við launþegafélög starfsmanna sem og við Boeing. Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair sagði í samtali við Viðskiptablaðið að áherslan yrði á að fá íslenska fjárfesta inn í félagið.