Sjóðir í stýringu fjárfestingarfyrirtækisins Capital Group Companies, hafa keypt 33,6 milljón hluti í Marel, sem samsvara rétt yfir 5% af öllu hlutafé í fyrirtækinu. Miðað við núverandi gengi er verðmæti hlutanna ríflega 17,7 milljarða íslenskra króna.

Fyrir var einn sjóðanna í stýringu félagsins, Smallcap World Fund, skráður með 4,11% eignarhlut, eða 24,6 milljón hluti samkvæmt hluthafalista á heimasíðu félagsins. Þar sem um flöggun um atkvæðarétt í stýringu fjárfestingarfélagsins kemur ekki fram hvort fleiri sjóðir í stýringu félagsins hafi átt bréf, en samkvæmt upplýsingum frá Marel er þessi tiltekni sjóður skráður með 27,6 milljónir hluta.

Munurinn á bréfum Smallcap sjóðsins við uppfærslu hluthafalistans í gær og núverandi eignarhlutar í stýringu fjárfestingarfyrirtækisins er tæplega 9 milljón hlutir, með markaðsvirði um á um 4,75 milljarða íslenskra króna, en ef miðað er við upplýsingarnar frá Marel er munurinn tæplega 6 milljónir hluta að markaðsvirði tæplega 3,2 milljarðar króna.

Samanlagt eru sjóðir í stýringu félagsins þar með orðnir fjórði stærsti fjárfestirinn í félaginu, en samkvæmt hluthafalista sem uppfærður er í dag, eru stærstu eigendurnir Eyrir Invest með 28,37%, Lífeyrissjóður verslunarmanna með 9,9%, Gildi lífeyrissjóður með 5,75% og loks Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins A-deild með 4,65%.

Capital Group Companies er með höfuðstöðvar í Los Angeles í Bandaríkjunum, auk skrifstofa víðar í landinu, sem og í Evrópu og Asíu. Er félagið eitt elsta og stærsta fjárfestingarfélag heims, stofnað árið 1931, með um 1,87 billjón Bandaríkjadali, eða 1.870 milljarða dala í stýringu. Það samsvarar um 230.347 milljörðum íslenskra króna, eða 230,4 billjónum króna.