*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 23. júní 2021 23:20

Kaupa 16,6% í Icelandair á 8 milljarða

Bain Capital vill verða stærsti hluthafi Icelandair. Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður félagsins, mun láta af störfum gangi kaupin eftir.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Fjárfestingasjóðurinn Bain Capital hefur gert samkomulag við Icelandair Group um að kaupa 16,6% hlut í félaginu fyrir 8,09 milljarða króna. Bain skráir sig fyrir samtals 5.659 milljónum nýrra hluta í Icelandair á genginu 1,43 krónur á hlut en samkomulagið er háð samþykki hluthafafundar Icelandair og að hluthafar falli frá forgangsrétti að nýjum hlutum í félaginu.

Þá er í samkomulaginu skilyrði um að Bain Capital fái fulltrúa í stjórn félagsins. Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður Icelandair, mun stíga til hliðar sem stjórnarmaður í félaginu verði viðskiptin samþykkt á hluthafafundi samkvæmt tilkynningu frá Icelandair. Úlfar hefur setið í stjórn félagsins frá árinu 2010 Stefnt er að því að halda fundinn 23. júlí. Hömlur verða á viðskiptum með hina nýju hluti í 180 daga. Gangi viðskiptin eftir verður Bain stærsti hluthafi Icelandair.

Í tilkynningunni segir að Bain Capital muni að auki fá áskriftarréttindi fyrir hlutum sem samsvara 25% af heildarfjölda þeirra nýju hluta sem gefnir verða út. Heimildin mun gilda í tíu daga frá og með birtingu uppgjörs félagsins fyrir annan ársfjórðung 2022. Áskriftarréttindin veita Bain heimild, en ekki skyldu, til kaupa á nýjum almennum hlutum í félaginu á sama gengi á hvern hlut að viðbættum 15% ársvöxtum.

„Hlutafjáraukningin mun styrkja fjárhagsstöðu Icelandair Group enn frekar og auka fjárhagslegt bolmagn félagsins til að nýta þau tækifæri sem munu skapast í þeirri fordæmalausu stöðu sem nú er uppi á flugmörkuðum," segir í tilkynningunni.

Stofnað af Mitt Romney 

Bain Capital er alþjóðlegur fjárfestingasjóður með starfsemi í fjórum heimsálfum, hefur yfir 1.200 starfsmenn og er eignasafn hans metið á um 130 milljarða Bandaríkjadala. Félagið var stofnað árið 1984 af þremur meðeigendum Stjórnendaráðgjafarfyrirtækisins Bain & Company, þar á meðal bandaríska öldungadeildarþingmanninum og fyrrverandi forsetaframbjóðandi Repúblikana Mitt Romney. Hann fékk að leiða fjárfestingafélagið og gerði það að einu stærsta fjárfestingafélagi í heimi. 

Romney sagði sig frá Bain í byrjun árs 2002 og seldi hlut sinn en samdi um að fá áfram hlutdeild að hagnaði frá rúmlega 20 sjóðum í stýringu hjá Bain Capital sem skilaði honum milljónir dala árlega, að því er NYT greindi frá í desember 2011.

Fyrirkomulagið á kaupunum er svipað og þegar bandaríski fjárfestingasjóðurinn PAR Capital Management keypti 11,5% hlut í Icelandair, í formi nýs hlutafjár, í apríl 2019 á rúma 5,6 milljarða króna á genginu 9,03 krónur á hlut. Sjóðurinn bætti stuttu síðar við sig rúmlega 2% hlut og varð stærsti hluthafi Icelandair. Eftir að Covid heimsfaraldurinn hófst byrjaði PAR að selja í Icelandair þegar gengi Icelandair var kokmið niður fyrir 3 krónur á hlut. Sjóðurinn tók síðan ekki þátt í hlutafjárútboðinu á síðasta ári og seldi í kjölfarið allan hlut sinn í flugfélaginu.

Icelandair lauk 23 milljarða króna hlutafjárútboði í september síðastliðnum en með hverjum hlut fylgdi 25% áskriftarréttindi á sama gengi að viðbættum 15% vöxtum næstu þrjú árin upp á 5,7 milljarða króna.

Tilkynning Icelandair kemur á sama tíma og tilvonandi samkeppnisaðilinn Play vinnur að eigin hlutafjárútboði fyrir skráningu á First North markaðinn en útboð Play hefst á morgun, sama dag og fyrsta flug félagsins fer í loftið.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group:

„Það er mikið gleðiefni að bjóða Bain Capital velkomin í sterkan og fjölbreyttan hluthafahóp okkar. Við erum ánægð með að fá í hópinn leiðandi fjárfesti á heimsvísu með mikla þekkingu á fluggeiranum. Samkomulagið er auk þess mikilvæg viðurkenning á því ötula starfi sem starfsfólk Icelandair hefur unnið til að tryggja bjarta framtíð félagsins. Við hlökkum til samstarfsins og að nýta þau miklu tækifæri sem við sjáum í viðskiptalíkani Icelandair eftir heimsfaraldurinn.“

Matthew Evans, framkvæmdastjóri Bain Capital Credit:

„Við erum mjög spennt fyrir því að bæta Icelandair Group í fjölbreytt eignasafn okkar í flugtengdri starfsemi og að styðja við flugfélagið í næsta kafla 84 ára sögu þess. Þó líklegt sé að það taki ferðaþjónustu í heiminum nokkurn tíma að ná fullum styrk á ný, deilum við þeirri trú með stjórnendum Icelandair að viðskiptalíkan félagsins sé mjög samkeppnishæft til lengri tíma og að félagið hafi rekstrarsögu sem setur það í kjörstöðu til þess að nýta sér þau tækifæri sem verða til nú þegar heimsfaraldurinn er í rénun. Við erum sannfærð um að víðtæk reynsla okkar úr fluggeiranum og virðisaukandi nálgun muni styðja við vöxt Icelandair til hagsbóta fyrir alla hluthafa.“ 

Stikkorð: Icelandair