*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Erlent 24. ágúst 2020 17:08

Kaupa heilbrigðisþjónustuarm á 319 milljarða

Blackstone hyggst kaupa hluta af starfsemi japanska lyfjafyrirtækisins Takeda er snýr að heilbrigðisþjónustu við neytendur.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Bandaríska fjárfestingafélagið Blackstone Group hefur í hyggju að kaupa þann hluta japanska lyfjafyrirtækisins Takeda Pharmaceutical er snýr að heilbrigðisþjónustu við neytendur. Umræddur heilbrigðisþjónustuhluti ku vera metinn á 2,3 milljarða dollara (318,7 milljarða íslenskra króna), en Takeda ætlar, eftir að viðskiptin ganga í gegn, að einbeita sér að því að þróa lyf við óuppgötvuðum kvillum og sjaldgæfum sjúkdómum. Reuters greinir frá þessu.

Takeda, sem er stærsta lyfjafyrirtækið í Japan, hefur að undanförnu verið að selja ýmis dótturfélög sín víða um heim. Er það hluti af endurskipulagningu á rekstri félagsins, en einnig til að greiða niður skuldir í kjölfar 59 milljarða dollara yfirtöku á bandaríska lyfjafyrirtækinu Shire Plc á síðasta ári.

Stikkorð: Blackstone Group Takeda