Útgerðarfélagið Gjögur á Grenivík hefur keypt togarann Helgu RE 49 af Ingimundi hf í Reykjavík. Með kaupunum fylgja 1.500 þorskígildistonn. Nafni skipsins verður breytt í Áskell EA 749.

Helga RE var smíðaður í Taívan og kom til hafnar í Reykjavík í ágúst árið 2009 og var þetta fyrsti nýsmíðaði togarinn sem þangað kom í níu ár. Skipið er 29 metra langt og 360 brúttótonn.

Fram kemur um viðskiptin í vef Vikudags á Akureyri að Gjögur á fyrir þrjú skip; togskipið Oddgeir EA 600, sem verður lagt fyrst um sinn, Vörð EA 748 og uppsjávarskipið Hákon EA 148. Gjögur rekur fiskvinnslu bæði á Grenivík og í Grindavík. Þá á Gjögur um þriðjung í Síldarvinnslunni á Neskaupstað.