Sveitir ehf., sem er í eigu nokkurra kaupfélaga, þar á meðal Kaupfélags Skagfirðinga og fjárfesta, hafa eignast helmingshlut í Áburðarverksmiðjunni hf, að því er fram kemur í héraðsblaðinu Feyki á Sauðárkróki. Þar segir að samkomulag þessa efnis liggi fyrir, sem feli meðal annars í sér að kaupfélögin séu komin í samstarf með Áburðarverksmiðjunni um innflutning og sölu á áburði.

Áburðarverksmiðjan hefur í seinni tíð ekki framleitt eigin áburð heldur flutt hann inn eins og aðrir aðilar á markaði og skipað honum upp í Gufunesi.

Staða Áburðarverksmiðjunnar á markaði styrkist við þessa breytingu,að því er fram kemur í Feyki. Markaðshlutdeild hennar á síðasta ári var talin um 60% og að auki hafa kaupfélögin flutt beint inn áburð undir sínum eigin formerkjum.