*

sunnudagur, 5. desember 2021
Innlent 20. janúar 2020 11:22

Kaupa í Heimavöllum fyrir milljarð

Norskt leigufélag kaupir ríflega 7% hlut í íslensku íbúðaleigufélagi sem hækkaði í verði um hátt í 7% í viðskiptunum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Norska leigufélagið Fredensborg hefur keypt yfir 810,1 milljón hluti í leigufélaginu Heimavöllum, eða sem samsvarar 7,2% hluta í félaginu.

Kaupir félagið hlutina í gegnum dótturfélagið Fredensborg Ice, en norska félagið er með um 450 starfsmenn í tengdum fasteignafélögum. Til að mynd á móðurfélagið helming í félaginu Fredensborg Bolig sem nú stendur að byggingu um 5.000 íbúða en það stefnir að því að verða leiðandi leigjandi íbúða á norska markaðnum.

Seljendur um helmings þess hlutafjár, eða rétt rúmlega 433,3 milljón hluti, eða sem samsvarar 3,83% hlutafjár í félaginu er Klasi, félag þeirra Tómasar Kristjánssonar og Finns Reyrs Stefánssonar.

Klasi er að 93% í eigu Siglu ehf, en það er að helmingi í eigu Gana ehf., og Snæbóls ehf., en fyrir viðskiptin áttu þessir aðilar samtals rétt rúmlega 2,4 milljarða hluta í félaginu eða 21,43% í Heimavöllum.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í febrúar fyrir ári vildu þeir afskrá félagið úr kauphöllinni, en fengu afsvar frá Nasdaq og fóru því í staðinn af stað með endurkaupaáætlun á bréfum félagsins.

Lítil viðskipti hafa verið með bréf Heimavalla síðustu misserin, en eins og fjallað var ítarlega um eftir skráningu þess lækkaði gengið nokkuð en nú hefur það hækkað um 6,84% í viðskiptum dagsins sem nema 1.028 milljónum króna.

Miðað við gengi félagsins nú, eða 1,25 krónur, nema heildarkaup norska félagsins 1.012,7 milljónum króna, en þar af hefur söluandvirði Klasa numið 541,6 milljónum króna.