Fasteignafélagið Reitir kaupir Sunnukrika 3 og 3B í Mosfellsbæ á 1,95 milljarða króna af Sunnubæ ehf. samkvæmt tilkynningu frá Reitum. Sunnubær er í eigu sjóðsins Fasteignaauður V sem er í stýringu hjá Kviku banka.

Um er að ræða tæplega 3.900 fermetra af verslunar- og þjónustuhúsnæði sem nýlega er lokið við byggingu á. Þar má finna verslun Nettó, Heilsugæsluna í Mosfellsumdæmi og Apótekarann.

Áætlaðar leigutekjur frá árinu 2024 eru um 150 milljónir króna á ári en fram til þess eru þær um 120 milljónir króna miðað við núverandi leigusamninga. Nýtingarhlutfall eignarinnar í dag er um 90%, og rekstrarhagnaðarhlutfall um 85%. Meðaltími leigusamninga er tæp 16 ár.

Afhending eignanna mun fara fram þegar fyrirvörum um niðurstöður áreiðanleikakönnunar og samþykki stjórnar Reita hefur verið aflétt samkvæmt tilkynningunni.