Landsmenn flykkjast í auknum mæli til útlanda á haustmánuðum. Mikill verðmunur getur verið á vörum í Bandaríkjunum og á Íslandi. Því er algengt að jólagjafirnar séu græjaðar í fríinu.

Samhliða sterkara gengi krónunnar hafa utanlandsferðir Íslendinga aukist að nýju, eftir hrun gjaldmiðilsins á árinu 2008. Fáir stigu upp í flugvél fyrir tveimur árum en nú hefur orðið breyting á. Sífellt fleiri skella sér í styttri ferðir til útlanda að nýju. Vitað er að þar með hafa jólagjafaferðirnar snúið aftur.

Þorvarður Guðlaugsson, svæðisstjóri Icelandair á Íslandi, segir flug til Ameríku hafa verið sérstaklega öflugt á árstímanum fyrir jól. Verslunar- og skemmtiferðir til Boston og New York hafi verið vinsælar, og þá hefur Washington einnig bæst í hópinn.