Neytendur í Taiwan kepptust um að kaupa allan klósettpappír sem þeir gátu fest hönd á um helgina en hillur tæmdust í mörgum verslunum að því er BBC greinir frá .

Klósettpappíræðið kemur til vegna væntanlegra verðhækkana en framleiðendur hafa greint smásölum frá því að verð muni hækka um 10-30% í næsta mánuði.

Tómar búðarhillur, sem yfirleitt eru fullar af klósettpappír, hafa jafnframt verið vinsælt viðfangsefni á samfélagsmiðlum í Taiwan.

Margir neytendur keyptu þó í stórum stíl vegna þess að þeir óttuðust einmitt að hillur yrðu tómar.

Ástæða væntanlegra verðhækkana eru skógareldar í Kanada og framleiðsluerfiðleikar í Brasilíu sem hafa valdið samdrátti í framboði.