Forsvarsmenn lyfjarisans Merck hafa staðfest að þeir eigi i viðræðum um kaup á lyfjafyrirtækinu Cubist Pharmaceuticals. Talið er að kaupverðið sé um 9,5 milljarðar dollara eða 1.180 milljarðar króna.

Cubist hefur sérhæft sig í þróun lyfja sem gagnast eiga í baráttunni gegn svokölluðum „ofurbakteríum" (e. superbugs). Dæmi um slíkar bakteríur eru E.coli, salmonella og MRSA.

Um 1.000 manns starfa hjá Cubist og á síðasta ári varði fyrirtækið tæpum 40 milljörðum króna í lyfjarannsóknir. Hlutabréf í fyrirtækinu hækkuðu um 36% við fréttirnar af hugsanlegum kaupum Merck.

Fyrr á árinu keypti Merck lyfjafyrirtækið Idenix Pharmaceuticals á 3,85 milljarða dollara eða 480 milljarða króna.