Hluthafahópur undir forystu fjárfestingasjóðanna CVC Capital Partners og Temasek hefur keypt meirihluta í bandaríska lyfjafyrirtækinu Alvogen. Greint er frá þessu í Fréttablaðinu .

Þar kemur fram að kaupverðið sé ekki gefið upp, en heildarvirði fyrirtækisins í viðskiptunum sé metið á 270 milljarða króna. Alvogen starfar í 35 löndum og hefur um 2.300 starfsmenn, en alþjóðlegar höfuðstöðvar fyrirtækisins eru á Íslandi. Róbert Wessman er forstjóri Alvogen og verður áfram leiðandi hluthafi.

„Þeir hafa trú á okkar framtíðarsýn, þ.e. að byggja upp leiðandi fyrirtæki í heiminum á okkar sviði. Þessir sjóðir hafa skuldbundið sig til að styðja við framtíðarvöxt Alvogen með þekkingu sinni og fjármagni,“ segir Róbert í samtali við Fréttablaðið.