Íslenskir fjárfestar ásamt tryggingafélaginu TM hafa fest kaup á ríflega fimmtíu prósenta hlut í eignarhaldsfélaginu Stoðum, sem áður hét FL Group, af Glitni HoldCo og erlendum fjármálastofnunum. Þetta kemur fram í frétt Markaðarins, fylgirits Fréttablaðsins.

Fyrir kaupin átti Glitnir 40 prósenta hlut í Stoðum. Stærsta eign félagsins er 8,87 prósenta hlutur í evrópska drykkjarvöruframleiðandanum Refresco Gerber sem er skráður á markað í Hollandi. Tekjur félagsins námu 2,21 milljarða árið 2015.

Kaupendahópurinn samanstendur af TM, félögum á vegum Jóns Sigurðssonar, sem var áður forstjóri FL Group, Einari Erni Ólafssyni, fyrrverandi forstjóra Skeljungs, Örvari Kjærnested, fjárfesti og stjórnarmanni í TM, og Magnúsi Ármanni Jónssyni, fjárfesti og fyrrverandi stjórnarmanni í FL Group. Jón Sigurðsson hefur setið í stjórn hollenska félagsins frá árinu 2009.

Ekki fást upplýsingar um hvað greitt var fyrir hlutinn. Markaðsvirði Refersco Gerber er nú um 170 milljarðar króna. Kaupverðið á Stoðum gæti því verið um sjö til átta milljarðar króna. Hlutur Stoða í hollenska fyrirtækinu var bókfærður á 12,7 milljarða króna í lok árs 2016 en gengi félagsins hefur lækkað um meira en 20% í verði í þessum mánuði.