Hópur fjárfesta á Akranesi hefur undirritað kaupsamning við Brim hf. um kaup á öllu hlutafé Norðanfisks ehf.

„Það er öflugur hópur, sem kaupir félagið, sem er að veðja á framtíðarsýn og forystu Sigurjóns Gísla Jónssonar framkvæmdastjóra sem er meðal hluthafa. Norðanfiskur er traust og gott félag sem þjónustar stóreldhús, verslanir og veitingastaði. Það er mikilvægt að Norðanfiskur verði áfram á Akranesi og við sjáum mikil tækifæri til sóknar,“ segir Inga Ósk Jónsdóttir fyrir hönd fjárfestahópsins.

„Ég þakka stjórnendum og starfsfólki Brims fyrir faglega vinnu í þessu söluferli. Það sýnir styrk fjárfestahópsins  á þessum óvissutímum í íslensku efnahagslífi, fyrirhuguð sé sókn frá Akranesi.“

Ráðgjafar kaupenda í ferlinu hafa verið Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri á Akranesi, KPMG og Lex en Íslensk Verðbréf var ráðgjafi og stýrði söluferlinu fyrir hönd Brims.

„Rekstur Norðanfisks á sér langa og farsæla sögu á Akranesi og Brim fagnar því að kaupendur séu öflugur hópur heimamanna og óskar félagið þeim velfarnaðar í framtíðarþróun félagsins.“ er haft eftir Kristjáni Þ. Davíðssyni, stjórnarformanni Brims, í fréttatilkynnigu Norðanfisks í dag.

Kaupsamningurinn er undirritaður með fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar. Gangi þeir fyrirvarar eftir má gera ráð fyrir að gengið verði frá viðskiptunum á næstu vikum.