*

mánudagur, 6. desember 2021
Innlent 9. maí 2019 13:41

Kaupa rúm fimm prósent í Skeljungi

Um er að ræða félögin RPF, Loran, Premier eignarhaldsfélag og IREF. Hluthafafundur síðar í mánuðinum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Félög í eigu Þórarins Arnars Sævarssonar og Gunnars Sverris Harðarsonar hafa gert framvirka samninga um kaup á rúmlega fimm prósent hlutafjár í Skeljungi. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Um er að ræða félögin RPF, Loran, Premier eignarhaldsfélag og IREF. Síðastnefndu félögin þrjú gerðu í gær og fyrradag framvirka samninga um kaup á 1,02 prósent hlut hvert í Skeljungi. Í gær gerði RPF framvirkan samning um kaup á 1,7 prósentum og í dag bættist annar við fyrir 0,74 prósent hlut.

Samanlagt hafa félögin því gert samninga sem kunna að leiða til öflunar atkvæðisréttar í Skeljungi sem nemur 5,51 prósenti. Ekkert félaganna fer eitt og sér yfir flöggunarmörk en félögin fjögur eru í eigu sömu aðila og hafa með sér samstarf í skilningi laga um verðbréfaviðskipti.

Sjá einnig: Baráttan um Skeljung

Fyrir eiga sömu félög Þórarins og Gunnar, sem meðal annars eru eigendur fasteignasölunnar RE/MAX, framvirka samninga sem veita félögunum rétt tæplega tíu prósent hlut í Kviku.

Sagt var frá því í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag að búist sé við átökum á hluthafafundi Skeljungs síðar í mánuðinum. 365 miðlar óskaði eftir hluthafafundi í félaginu en undanfarinn mánuð hefur félagið keypt rúmlega tíu prósent hlut í því. Áhöld eru uppi um framkvæmd fundarins en meðal þess sem er á dagskrá er að kjósa um það að ryðja núverandi stjórn sem kosin var á aðalfundi fyrir rúmum mánuði.

Stikkorð: Skeljungur