Deutsche Bank hefur nú tilkynnt um að hann áætli að kaupa eigin skuldabréf fyrir rúma 700 milljarða íslenskra króna. Heildarupphæðin í Bandaríkjadölum nemur um 5,4 milljörðum. Endurkaupin miða að því að sýna fjárfestum að fjármálainnviðir bankans séu traustir. Bloomberg segir frá þessu.

Gengi skuldatryggingabréfa bankans náði hæstu hæðum nú á dögunum, sem þýðir að fjárfestar eru ekki bjartsýnir á að bankinn geti greitt skuldir sínar í framtíðinni - og með endurkaupunum vill bankinn sýna að hann hafi í raun og reynd fjárhagslegt bolmagn til þess að standa undir skuldbindingum sínum.

Greiningaraðilar telja endurkaupin geta dregið úr ótta fjárfesta, án þess þó að koma til móts við hin raunverulegu vafaatriði sem fjárfestar hafa áhyggjur af, eins og hvernig bankinn mun hagnast nóg til þess að geta bæði greitt arð og staðið undir greiðslum af víkjandi skuldabréfum sínum.

Bankinn skilaði uppgjöri fjórða ársfjórðungs í lok síðasta mánuðar en þar kom fram að afkoma bankans var neikvæð í fyrsta sinn frá hruni.