*

föstudagur, 22. janúar 2021
Erlent 3. desember 2020 08:03

Kaupa Slack á nærri 4 þúsund milljarða

Salesforce kaupir annað fyrirtæki í San Fransisco til að styrkja sig í samkeppni við Microsoft Teams og Zoom.

Ritstjórn
Marc Benioff er framkvæmdastjóri Saleforce og eigandi Time Magazine
epa

Skýjalausnafyrirtækið Salesforce hyggst kaupa Slack Technologies á 27,7 milljarða dala, eða sem samsvarar 3.662 milljörðum íslenskra króna, eða tæplega 3,7 billjóna króna. Bæði fyrirtækin eru staðsett í San Fransisco í Kaliforníuríki Bandaríkjanna.

Samhliða tilkynnti Salesforce um að tekjur félagsins ársfjórðungnum sem lauk 31. október hefðu verið umfram væntingar, eða 5,42 milljarðar dala, en tekjurnar námu 4,51 milljörðum dala á sama tíma fyrir ári. Greinendur gerðu ráð fyrir 5,25 milljón dala tekjum og 700 milljón dala hagnaði, en hagnaðurinn nam 1,08 milljörðum á tímabilinu.

Salesorce hefur verið frumkvöðull í sölu áskrifta á hugbúnaði í gegnum skýþjónustu, en félagið sem starfað hefur í 21 ár hefur víkkað mikið út starfsemi sína undir stjórn Marc Benioff framkvæmdastjóra félagsins og eins meðstofnenda þess.

Áður reyndi fyrirtækið að setja á fót sams konar þjónustu og Slack veitir, sem hét Chatter, sem og það keypti samstarfsvettvanginn Quip Inc fyrir 500 milljón dali árið 2016, en hvorugt hefur náð þeim árangri sem að var stefnt.

Veðja á að breytingar vegna faraldursins séu komnar til að vera

Kaupin eru talin enn ein vísbendingin um að fyrirtæki séu að reikna með að þær breytingar sem orðið hafa á samskiptum fólks vegna heimsfaraldursins séu komnar til að vera. Hluthafar Slack munu fá 26,79 dali fyrir hvert bréf í félaginu auk 0,0776 hlutar í Salesforce.

Það samsvaraði 45,52 dölum eftir lokun markaða í gær, þá eftir 50% hækkun frá því að tilkynnt var um viðræður fyrirtækjanna í síðustu viku, en í dag hefur gengi bréfa Saleforce lækkað um 8,71%, niður í 221,30 dali, þegar þetta er skrifað.

„Við virkilega sjáum að heimurinn hefur farið í gegnum stórstígar breytingar,“ hefur WSJ eftir Bret Taylor rekstrarstjóra Salesforce. „Slack er kerfið sem tryggir samskipti við hvern einasta starfsmann, samstarfsaðila og jafnvel samskipti við viðskiptavini.“

Samningurinn nú við Slack er tvöfalt stærri en stærsti samningur fyrirtækisins hingað til, og er talið að með kaupunum sé fyrirtækið að tryggja stöðu sína í samkeppni við tölvurisana Microsoft og Alphabet, móðurfyrirtæki Google.

Benioff hefur verið áberandi talsmaður fyrirtækja í Bandaríkjunum, en hann hefur heitið því að Salesforce verði gjafmilt til góðgerðastarfs. Jafnframt hefur hann tryggt sér áhrif með kaupum á Time Magazine.

Forstjóri Slack, Stewart Butterfield hefur á sama tíma verið hávær rödd fyrir því að fyrirtæki þurfi að umbylta notkun sinni á tækni, en hann er annar stofnandi fyrirtækisins sem óx upp úr leikjafyrirtækinu Tiny Speck. Slack var til að byrja með hugsað sem valkostur við tölvupóstsamskipti innan fyrirtækja, en hefur orðið vinsælt meðal tæknifyrirtækja síðan árið 2014.

Fyrirtækið var sett á markað á síðasta ári, án hlutafjárútboðs, en bréf fyrirtækisins hafa ekki hækkað jafnmikið og til að mynda bréf Zoom og Microsoft sem grætt hafa á auknum áhuga á myndbandssamskiptum vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Microsoft hefur lagt mikla áherslu á Teams hugbúnað sinn síðustu misserin, en hann hefur eiginleika sem minna á bæði Zoom og Slack. Hugbúnaðarþjónustugeirinn hefur vaxið hratt síðustu ár, og er talið að hann nái 140 milljarða dala veltu á árinu 2022, sem sé 37% vöxtur frá síðasta ári.