Sem kunnugt er opnaði Tesla útibú hér á landi í september síðastliðnum, og þótt fyrirtækið gefi ekkert út opinberlega er óhætt að segja að salan hafi gengið vel.

Í könnun á fésbókarhóp Tesla eigenda og áhugamanna frá því í september segjast rúm 60 manns hafa pantað bíl, svo til allir Model 3 Long Range útgáfuna. Heimildir Viðskiptablaðsins herma þó að heildarfjöldinn sé nær 500 bílum, og séu hlutföll pantaðra útgáfa í takt við fésbókarkönnunina myndi það þýða um 3 milljarða kr. tekjur. Til samanburðar velti Toyota á Íslandi rúmum 12 milljörðum 2018, og ljóst að fleira en bílasala bjó þar að baki.

Fullyrðir að fjöldinn þrefaldist á árinu
Í dag eru tæpar 150 Teslur í umferð hér á landi, en Jóhann G. Ólafsson formaður Rafbílasambandsins segir ljóst að sú tala muni margfaldast á þessu ári. „Ég held ég geti alveg fullyrt að þessi tala muni þrefaldast á árinu. Ef það gerist ekki þá veit ég ekki hvað snýr upp né niður. Áhuginn er til staðar, og Tesla hefur enn mikla sérstöðu meðal rafbíla, auk þess sem Model 3 er á afar samkeppnishæfu verði,“ segir Jóhann.

Þótt útibúið íslenska hafi opnað í september og salan verið lífleg hefur þó enginn bíll verið afhentur enn, en fyrsta sending er væntanleg til landsins í næsta mánuði, og því stutt í að T-ið bogadregna verði mun algengari sjón á götum Íslands.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .