Andrew Cuomo, ríkissaksóknari í New York, hefur óskað eftir því við bandarísku fjárfestingarbankana JPMorgan Chase, Morgan Stanley og Wachovia að þeir hefji „nú þegar viðræður“ við yfirvöld sem miða að því að leysa vandræðin á uppboðslánamarkaðnum með ARSskuldabréf (e. auction rate securities).

Þetta kemur fram í frétt Financial Times, en markaðurinn með ARS-skuldabréf hefur verið frosinn frá því í febrúar á þessu ári. Beiðni Cuomos kemur aðeins nokkrum dögum eftir að Citigroup, UBS og Merrill Lynch sögðust ætla að kaupa ARSskuldabréf til baka af fjárfestum fyrir meira en 41 milljarð Bandaríkjadala. Það er fastlega búist við því að fleiri fjármálafyrirtæki fylgi í kjölfarið.

Útgáfa ARS-skuldabréfa var vinsæl fjármögnunarleið fyrir marga opinbera aðila eins og sveitarfélög, háskóla, heilbrigðisstofnanir og námslánasjóði, og gerði þeim kleift að taka lán til langs tíma, á lágum skammtímavöxtum. Vextirnir voru hins vegar endurskoðaðir með reglulegu millibili á sérstökum uppboðum sem bankarnir héldu fyrir fjárfesta.

Í frétt Wall Street Journal segir að fjármálafyrirtæki á Wall Street hafi selt slík skuldabréf að andvirði 330 milljarðar dala til meira en hundrað þúsund einstaklinga og annarra fjárfesta.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .