Reykjavíkurborg hefur gert samning um kaup á allt að tólf metanknúnum sorphirðubílum. Fyrstu fjórir bílarnir verða afhentir í október og frekari pantanir munu ráðast af endurnýjunarþörf flotans.

Þrír bílanna eru með tvískiptum sorpkassa þannig að hægt er að sækja tvo flokka af úrgangi samtímis. Fjórði bíllinn er með krana sem gerir meðal annars. kleift að hífa upp niðurgrafna gáma og þar sem aðkoma er þröng og væri erfitt að komast að með annars konar bílum. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að ráðgert sé að koma fyrir niðurgröfnum sorpgámum á nýjum byggingasvæðum svo sem í Vesturbugt og á Valssvæðinu. Stórir niðurgrafnir gámar auðveldi sorphirðu og geri hana skilvirkari sérstaklega í þéttri byggð. Kraninn geri borginni þannig mögulegt að bjóða íbúum Reykjavíkur nýjar lausnir í stað hefðbundinna tunna.

„Það er mikið hagræði af þessum bílum, bæði hvað varðar vinnulag og umhverfismál,“ segir Guðmundur Benedikt Friðriksson skrifstofustjóri hjá umhverfis- og skipulagssviði í tilkynningu. „Við þurfum ekki að senda tvo bíla í hverja götu heldur getur sami bíllinn tekið blandaðan úrgang og pappír í tvískipt hólfið,“ segir hann ennfremur.