Bandaríski snyrtivörurisinn Estée Lauder Companies hefur náð samkomulagi um kaup á hátískumerkinu Tom Ford, sem er metið á 2,8 milljarða dala eða um 400 milljarða króna í viðskiptunum. Áætlað er að viðskiptin gangi í gegn á fyrri helmingi næsta árs, með fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda.

Meðal annarra fyrirtækja sem kepptust um Tom Ford var Kering, sem á m.a. merkin Gucci, Saint Laurent og Balenciaga. Fyrr í mánuðinum sagði WSJ frá því að Kering væri langt komið í viðræðum um að kaupa Tom Ford vörumerkið en Estée Lauder hafði betur að lokum.

Samkomulagið felur í sér að Tom Ford sjálfur muni áfram starfa sem skapandi hugsjónamaður fyrir vörumerkið út næsta ár.

Estée Lauder var þegar með leyfissamning á snyrtivörum Tom Ford og hafði sérstaklega áhuga á að eignast þessa tilteknu starfsemi. Með viðskiptunum eignast samstæðan einnig fatalínu Tom Ford. Estée Lauder er takmarkaða reynslu á sviði fatnaðar og því geta kaupin gert fyrirtækinu kleift að bæta við annarri tekjustoð.

Markaðsvirði Estée Lauder, sem á vörumerki á borð við MAC, Clinique, La Mer og Aveda, er um 80,8 milljarðar dala.