Sameiginlegt félag íslenska ferðaþjónustufyrirtækisins Arctic Adventures og Pt Capital hefur gengið frá kaupum á öllu hlutafé All Alaska Tours og Alaska Private Touring. Arctic Adventures hf. mun fara með 50,25% hlut í sameiginlegu félagi, Arctic Adventures Alaska.

„Markmið Arctic Adventures og Pt Capital er að taka þátt í uppbyggingu á vaxandi ferðaþjónustumarkaði í Alaska,“ segir í fréttatilkynningu. „Fyrir Covid-19 heimsfaraldurinn var stöðugur vöxtur ferðamanna til Alaska og er ferðaþjónustan í Alaska vel í stakk búin til að halda áfram vexti á næstu árum.“

All Alaska Tours, stofnað árið 1991, er lýst sem einum af fremstu ferðaskipuleggjendum í Alaska og Yukon, Kanada. Fyrirtækið er með sambönd við yfir 1.000 birgja víðsvegar í Alaska og Kanada ásamt því að þjónusta aðila um allan heim sem vilja heimsækja Alaska og Kanada.

Alaska Private Touring er systurfélag All Alaska Tours og býður upp á sérsniðnar ferðir sem hannaðar eru út frá óskum viðskiptavina frá upphafi til enda.

Gréta María Grétarsdóttir, forstjóri Arctic Adventures:

„Alaska er að mörgu leyti svipaður áfangastaður og Ísland. Ferðamenn sækja Alaska heim til að upplifa svipuð ævintýri og á Íslandi þar sem jöklar, heitar laugar, norðurljós, hvalir, lundar og íshellar eru til staðar í Alaska líkt og á Íslandi. Það er því margt sem við höfum fram að færa verandi leiðandi í ævintýra- og afþreyingarferðum á Íslandi og að sama skapi margt sem við getum lært af aðila með yfir 30 ára reynslu af skipulagningu ferða í Alaska. Arctic Adventures hefur þá sýn að verða leiðandi ferða- og ævintýrafyrirtæki á norðurslóðum og með því að bjóða All Alaska Tours og Alaska Private Touring velkomna í Arctic Adventures fjölskylduna höfum við tekið stórt skref í átt að því markmiði. Alaska er einnig vaxandi áfangastaður og við horfum á kaupin sem upphafið á vegferð sem mun skapa tækifæri til nýs vaxtarskeiðs innan samstæðu Arctic Adventures.“

Hugh Short, forstjóri Pt Capital:

„Pt Capital er stolt af því að vera í samstarfi við Arctic Adventures um kaupin á All Alaska Tours. Pt Capital hefur verið virkur fjárfestir á Íslandi síðastliðin fimm ár og við hlökkum nú til að koma með sérfræðiþekkingu og alþjóðlega fjárfestingu Arctic Adventure heim til Alaska. Bati eftir COVID-19 og framtíðarvöxtur ferða í Alaska býður upp á fjölmörg tækifæri fyrir All Alaska Tours.“

Í lok síðasta árs var Gréta María Grétarsdóttir ráðin forstjóri Arctic Adventures og á sama tíma lýsti ferðaþjónustufyrirtækið yfir áhuga á að fara á markað. Í samtali við Viðskiptablaðið í mars sagði Gréta María að félagið horfi til þess að fara á markað á næsta ári en markmiðið sé að ná fyrst heilu rekstrarári þar sem áhrifa Covid-faraldursins gætir ekki í jafnmiklum mæli.