Breska útfararþjónustusamstæðuna Dignity hefur samþykkt yfirtökutilboð sem metur fyrirtækið á 281 milljón punda eða sem nemur nærri 50 milljörðum króna, frá fjárfestahópi sem er leiddur af fjárfestingarfélögunum PWOne V Ltd, Castelnau Group og Phoenix Asset Management Partners. The Times greinir frá.

Fjárfestahópurinn bauð fyrst í Dignity í byrjun mánaðarins en hækkaði tilboð sitt úr 5,25 í 5,50 pund á hlut. Kaupgengið er 29% yfir dagslokagengi félagsins þann 3. janúar, fyrir fyrra yfirtökutilboðið. Hlutabréfaverð Dignity, sem er eina fyrirtækið innan breska útfarargeirans sem er skráð á markað, hefur hækkað um 7,5% í viðskiptum dagsins og stendur nú í 5,40 penníum.

Fjárfestahópurinn, sem átti þegar 29% hlut í Dignity, sagði að yfirtakan og afskráning af markaði muni veita félaginu að aðgang að „langtíma þolinmóðu fjármagni“ og stuðningsríkt rekstrarumhverfi fyrir stjórnendur. Fyrirhugað sé að auka fjárfestingu félagsins og m.a. fjölga bálstofum og ráðast í yfirtökur.

Stjórnarformaður Dignity segir að félagið horfi fram á aukna samkeppni og neytendur með sterkara verðskyn. Því gefist hluthöfum tækifæri á að selja hlut sinn á góðu verði þrátt fyrir óvissu í rekstrinum.

Dignity, sem er með höfuðstöðvar í bænum Sutton Coldfield nálægt Birmingham, er eitt af stærstu fyrirtækjum breska útfarargeirans. Það rekur 46 bálstofur og 725 útfararstofur.

Rekstrarhorfur félagsins hafa versnað að undanförnu. Áætlað er að tekjur félagsins á síðasta ári hafi verið í kringum 275 milljónir punda samanborið við 312 milljónir punda árið 2021. Þá dróst rekstrarhagnaður Dignity saman um meira en helming, eða úr 56 milljónum punda í minna en 20 milljónir punda.