Nýtt vinnslukerfi Samherja verður það fullkomnasta sem þekkist í heiminum að því er segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu um að það hafi ákveðið að festa kaup á nýjum búnaði frá íslenska hátækni fyrirtækinu Völku.

Tækin verða sett upp í vinnsluhúsum félagsins á Akureyri og Dalvík. Hluti af búnaðinum verður settur upp hjá Útgerðarfélagi Akureyringa (ÚA) í sumar og mun Valka svo sjá um stærsta hlutann af vinnslubúnaðinum í nýrri fiskvinnslu Samherja á Dalvík, sem áætlað er að verði tilbúin um mitt ár 2019.

Verðmæti þessara samninga er um 20 milljónir evra eða um 2,5 milljarðar íslenskra króna á gengi dagsins. Um er að ræða kaup á sex nýjum vatnsskurðarvélum, þremur ferskfiskflokkurum, þremur flokkurum fyrir frosna bita og tengdan búnað frá Völku í bæði vinnsluhús félagsins.

Gefur mikla nákvæmni og sveigjanleika í skurði

Með nýrri tækni Völku í skurði næst mjög mikill sveigjanleiki og nákvæmni í bitaskurði sem uppfyllir vel kröfur markaðarins.

Aukið hlutfall fer í verðmætustu afurðirnar því skurðarvélin tryggir að hámarksverðmæti fáist fyrir sérhvert flak. Beingarður er um 1-4 prósentustigum minni en í handskurði og markmiðið er að hann verði enn minni í nýrri skurðarvél með tvöfaldri röntgenvél sem mælir hallann á beinunum mjög nákvæmlega og sker samkvæmt því.

Nýjar tvöfaldar röntgenvélar tryggja enn betur en áður beinlausar afurðir og stórbætta hráefnismeðhöndlun, þar sem öllum millilagerum er eytt. Flök og bitar eru aldrei slegin út af böndum eða látin falla á milli banda og tíminn frá því að vinnsla hefst og þar til afurðirnar eru komnar í lokapakkningar er lágmarkaður.

Gefur tæknin möguleika á að þróa nýjar vörur sem ekki var unnt að framleiða með eldri framleiðslutækni. Notaðar verða gervigreindaraðferðir til aðstoðar við framleiðslustýringuna.

Metnaðarfullt verkefni

Valka hefur unnið markvisst í þróun hugbúnaðar og tækjalausnum fyrir fiskiðnaðinn allt frá stofnun fyrirtækisins árið 2003, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um stefnir félagið að því að tvöfalda veltu sína á árinu, en það opnaði nýlega nýjar höfuðstöðvar í Kópavogi.

„Það hefur verið einstakt að vinna með framsæknum íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum að þróun þessara lausna og ljóst að án slíks samstarfs hefði sá árangur sem náðst hefur ekki verið mögulegur,“ segir Helgi Hjálmarsson, framkvæmdastjóri Völku.

„Valka hefur átt í frábæru samstarfi við Útgerðarfélag Akureyringa á liðnum árum, sem hefur átt stóran þátt í að fleyta vatnsskurðartækninni á þann stað sem hún er í dag. Við hjá Völku erum þakklát fyrir að fá að taka þátt í þeirri miklu uppbyggingu sem Samherji hefur lagt af stað með. Verkefnið er mjög metnaðarfullt og verða nýju vinnslukerfin vafalítið þau fullkomnustu sem þekkjast í matvælavinnslu í heiminum og þarf enga höfðatölu til að slá slíku fram.“