*

fimmtudagur, 9. desember 2021
Innlent 18. október 2021 08:55

Kaupa vöruhús fyrir fimm milljarða

Kaldalón kaupir vöru- og geymsluhúsnæði, þar á meðal Suðurhraun 10 sem hýsir vöruhús Ikea, fyrir fimm milljarða.

Ritstjórn
Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Kaldalóns.
Eyþór Árnason

Fasteignafélagið Kaldalón hefur náð samkomulagi um kaup á fasteignum fyrir um fimm milljarða króna. Kaldalón eignast fasteignir að Suðurhrauni 10, sem hýsir meðal annars vöruhús Ikea, og Íshellu 1 ásamt fasteignum að Fiskislóð 23-23. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Kaldalón sendi frá sér í gærkvöldi.  

Kaldalón kaupir 7,1 þúsund fermetra vöruhúsnæðið að Suðurhrauni 10 í Garðabæ og 7,7 þúsund fermetra vöru- og geymsluhúsnæðið að Íshellu 1 í Hafnarfirði af Eignabyggð ehf. Heildarkaupverð á félögunum sem halda utan um fasteignirnar, Hellubyggð ehf. og Vallarbyggð ehf., nemur samtals 3.780 milljónum króna en yfirteknar skuldir eru um 2.360 milljónir.

Sem endurgjald í viðskiptunum afhendir Kaldalón félagið U22 ehf. en helsta eign þess er þróunarlóð við Steindórsreit þar sem leyfi er til byggingar á um 7,6 þúsund fermetra íbúðarhúsnæðis auk atvinnurýma. Áætlað virði eigna Kaldalóns í viðskiptunum er 1.845 milljónir sem er um 170-260 milljónir umfram bókfært virði. Mismunur er gerður upp með tryggingarbréfi sem greiðist upp árið 2023. Stefnt er að því að kaupin komi til framkvæmda eigi síðar en 1. desember næstkomandi.

Þá hefur Kaldalón einnig keypt fasteign að Fiskislóð 23-25, sem hýsir starfsemi Geymslna, dótturfélags Securitas. Kaupverð eignarinnar er 1,2 milljarðar en greiðslan fer fram með lántöku, reiðufé og útgáfu nýs hlutafjár í Kaldalóni að fjárhæð 200 milljónum króna. Gengi hlutafjárútgáfunnar verður 1,85 krónur á hlut og alls verða gefnir út 108.108.108 nýir hlutir sem nemur um 2% af útgefnu hlutafé fasteignafélagsins.

Jón Þór Gunnarsson, forstjóri:

„Í dag tilkynnum við um kaup á fasteignum fyrir um fimm milljarða króna, og stækkum þannig töluvert eignasafn okkar. Með kaupum á vöruhúsum og geymsluhúsnæði á lykilstaðsetningum á höfuðborgarsvæðinu erum við að tryggja okkur eignir sem verða sífellt verðmætari í breyttum heimi verslunar og þjónustu. Vöruhús eru nauðsynlegir innviðir þegar kemur að aukinni netverslun og heimsendingum. Hvað varðar sölu á Steindórsreitnum þá sýnir þetta enn og aftur að okkur er að takast að vinna afskaplega vel úr þróunarbanka félagsins.“