Tölvuleikjaframleiðandinn Take-Two Interactive, sem framleiðir meðal annars tölvuleikina Grand Theft Auto, Red Dead og NBA 2K, hefur keypt tölvuleikjaframleiðandann Zynga á 12,7 milljarða dali eða um 1.600 milljarða króna. Þetta kemur fram í frétt hjá Financial Times.

Frægasti tölvuleikur Zynga er án efa Facebook leikurinn Farmville, en félagið sérhæfir sig í símaleikjum. Strauss Zelnick, forstjóri Take-Two, segir í tilkynningu að kaupin geri félagið að einum stærsta símaleikjaframleiðanda heims. Í grein Wall Street Journal segir að kaupin muni ganga í gegn einhvern tímann á tímabilinu apríl-júní á þessu ári.

Take-Two verðmetur Zynga á 9,86 dali á hlut, en það er tæplega 65% hærra en lokagengi félagsins við lokun markaða síðastliðinn föstudag. Gengi Zynga hækkaði um tæp 50% í morgun, úr 6 dölum á hlut upp í 8,9 dali á hluti. Gengi félagsins stendur í tæplega 8,5 dölum á hlut, þegar þetta er skrifað.