Útsölurnar eru hafnar í Bretlandi og í dag er reiknað með því að milljónir manna fari í verslanir. Annar í jólum er þekktur verslunardagur í Bretlandi, en einnig í Kanada, Ástralíu og á Nýja-Sjálandi.

Samkvæmt könnun Barclaycard er reiknað með því að helmingur þeirra sem opna budduna í dag muni eyða meira en á „svarta fössaranum" (e. Black Friday). Þrátt fyrir að stór hópur fólks muni eyða meiru í dag en á „svarta fössaranum" er heildarverslun meiri á „svarta fössaranum", en sá verslunardagur á rætur að rekja til Bandaríkjanna.

Í Bretlandi jókst salan á annan í jólum um 1% á milli áranna 2015 og 2016. Búist er við áframhaldandi vexti nú þó reyndar sé reiknað með að mesti vöxturinn verði í netverslun. Sem dæmi um uppganginn í netverslun þá jókst hún um 12% fyrir þessi jól í Bretlandi samanborið við í fyrra. Greint er frá þessu vef breska dagblaðsins The Guardian .