Sá hlutur í Landsbankanum sem mun fara í að mynda stofn að nýju kaupaukakerfi bankans var 1,5 prósent af öllu hlutafé hans um mitt þetta ár. Miðað við innra virði bankans er virði hlutarins um 3,2 milljarðar króna.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag en þar segir að virði skilyrts skuldabréfs, sem ákvarðar hversu stóran hlut starfsmennirnir munu eignast í bankanum, jókst um níu milljarða króna á fyrri hluta þessa árs skv. hálfsársuppgjöri Landsbankans sem birt var á fimmtudag. Íslenska ríkið á sem kunnugt er tæp 82% í bankanum.

Þá kemur fram í frétt blaðsins að virði skuldabréfsins, sem getur mest verið 92 milljarðar króna, ákvarðast af frammistöðu ákveðinna eigna sem færðar voru inn í nýja bankann. Um er að ræða tvö söfn, annars vegar lán til stærri fyrirtækja og hins vegar lán til smærri fyrirtækja.

„Ef virði skuldabréfsins verður 92 milljarðar króna í lok þessa árs mun þrotabú gamla bankans afsala sér 18,67 prósenta eignarhlut sínum,“ segir í fréttinni.

„Þar af mun 16,67 prósenta hlutur renna til Bankasýslu ríkisins, sem mun þá halda á 98 prósenta eignarhlut, en tvö prósent munu fara í að mynda stofn fyrir kaupaukakerfi starfsmanna nýja Landsbankans. Ef sá árangur næðist ekki þá myndi hluturinn sem Bankasýslan og starfsmenn Landsbankans eiga að fá rýrna í beinu hlutfalli við lokavirði skuldabréfsins.“

Virði skuldabréfsins um mitt þetta ár var 69 milljarðar króna. Það hefur aukist um níu milljarða á þessu ári og um 42,5 milljarða króna frá árslokum 2010.