Starfshópur sem kannar þá möguleika sem fyrir hendi eru þegar við kemur að orkusölu frá jarðhitavirkjunum á Þeistareykjum og nágrenni stefnir að því standa við þá viljayfirlýsingu um að vera búinn að finna kaupanda að orkunni 1. október nk. Það er eftir tæplega tvo mánuði. Martha Eiríksdóttir, formaður fyrrnefnds starfshóps, segist telja að það sé raunhæft. „Við munum þó ekki láta það stjórna undirbúningnum að klára málin fyrir 1. október. Mikilvægara er að vinna vel að þessum málum en að reyna að klára þetta fyrir einhverja tiltekna dagsetningu. Það er þó ljóst að vinnan verður langt komin 1. október,“ segir Martha.

Aðrir möguleikar fyrir hendi

Margir raunhæfir möguleikar eru fyrir hendi, þ.á.m. álver og gagnaver. Starfsstöðvar yrðu staðsettar á Húsavík samkvæmt flestum þeim tillögum sem eru til skoðunar. Eins og greint hefur verið frá í Viðskiptablaðinu var samkvæmt frumathugun starfshópsins, sem skipaður er fulltrúum iðnaðarráðuneytisins, Landsvirkjunar, Norðurþings, Þingeyjasveitar og Skútustaðahrepps, talið að Alcoa og kínverska álfyrirtækið Bosai Mineral Group stæðu best að vígi sem kaupendur orkunnar.

Alcoa hefur sem kunnugt er unnið að athugun á því að reisa álver á Bakka við Húsavík. Vinnu við umhverfismat vegna mögulegs álvers er  að mestu lokið og hafa forsvarsmenn Alcoa hér á landi sagt að enn sé fyrir hendi mikill áhugi á því reisa álveg á Bakka. Áhugi Bosai kom hins vegar seinna í ferlinu og er tiltölulega nýtilkominn. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er áhugi fyrirtækisins á því að reisa álver mikilll og hefur fyrirtækið skipst á upplýsingum við stjórnvöld og starfshópinn fyrrnefnda vegna áhugans.

Hewlett Packard og fleiri

Martha segir ýmsa aðra möguleika enn koma til greina en álfyrirtækin tvö. M.a. hefur verið óskað frekar eftir upplýsingum frá bandaríska fjárfestinum Steve Munson sem hefur áhuga á því að koma að virkjun jarðhita með Landsvirkjun og selja orkuna til gagnavera tölvufyrirtækisins Hewlett Packard. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er talið að verkefnið geti verið álitlegt og alvara sé að baki hugmyndinni. Martha segir það að mörgu leyti ákjósanlegt ef mögulegt væri að fá fleiri en einn kaupanda að orkunni. „Eitt af því sem við erum að kanna er hvort mögulegt sé að fá fleiri en einn kaupanda að orkunni sem seld yrði frá svæðunum hér í kring. Það yrði að mörgu leyti álitlegur kostur, ekki síst fyrir sveitarfélögin á Norðausturlandi.“

-Sjá nánar í Viðskiptablaðinu.