„Það er erfitt að halda utan um tvær verslanir. Það er engin keðja lengur,“ segir Jón Helgi Guðmundsson, forstjóri Norvik móðurfélags Kaupáss. Félagið seldi nýverið verslanir 11-11 til rekstrarfélags klukkubúða 10-11. Jón Helgi vill ekki gefa upp kaupverðið en segir það óverulegt.

Starfsfólk 11-11 fylgir ekki með heldur verður eftir hjá Kaupási og Norvik. Um tíu manns voru í heilsdagsstörfum í báðum verslunum en fjöldi fólks vann þar í hlutastörfum.

Norvik keypti Kaupás árið 2003 og voru þegar mest lét 50 verslanir undir hatti samstæðunnar. Undir Kaupási eru sömuleiðis tólf verslanir undir merkjum Krónunnar, sex Kjarvals-búðir og fimm Nóatúns-verslanir. Verslunum 11-11 hefur fækkað í gegnum tíðina og standa nú eftir tvær sem fara yfir til rekstrarfélags 10-11.

Rekstrafélag 10-11 rekur 21 verslun undir merkjum 10-11 á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi og á Akureyri auk einnar verslunar undir merkjum Inspired by Iceland.

Norvik á og rekur jafnframt Byko, raftækjaverslunina Elko, íþróttavöruverslunina Intersport og Húsgagnahöllina.

„VIð töldum þetta konsept 11-11 ekki passa lengur inni hjá okkur,“ segir Jón Helgi.

Ekki hefur náðst í Árna Pétur Jónson, forstjóra rekstrarfélags 10-11. Pressan sagði um málið í morgun ekki liggja fyrir hvort verslanirnar verði reknar áfram í óbreyttri mynd eða felldar undir merki 10-11.